600 gestir í páskaeggjaleit í Viðey 2025

Páskaeggjaleitin í Viðey í ár gekk vonum framar og skapaði einstaka stemningu fyrir gesti á öllum aldri - sérstaklega börnin, sem nutu dagsins til hins ýtrasta. Allir virtust yfir sig ánægðir og dagurinn var fullur af gleði, hlátri og kærleika.

Siglingar til og frá eyjunni gengu eins og í sögu og á eyjunni sjálfri gekk skipulagið snurðulaust fyrir sig - hvort sem var á bryggjunni eða í Viðeyjarstofu, þar sem boðið var upp á vöfflur, kökur, kaffi og kakó í notalegu umhverfi.

Hápunkturinn var auðvitað páskaeggjaleitin sjálf, sem fór fram víðsvegar um eyjuna og fyllti hana lífi og gleði. Börnin leituðu eggja af ákefð og skemmtu sér konunglega.

Við viljum þakka kærlega öllum þeim sem komu að viðburðinum og gerðu hann að veruleika, sem og öllum sem lögðu leið sína til Viðeyjar. Slíkir viðburðir eru dýrmætur hluti af starfi okkar í eyjunni.

Hjartans þakkir fyrir yndislegan dag!